Vinnustofur á Íslandi
Frá nóvember 2022 til júlí 2023 voru haldnar 3 vinnustofur og tekin 6 viðtöl í tengslum við verkefnið Land fiðrildanna. Tvær vinnustofur voru haldnar á Kópaskeri og ein í Reykjavík. Viðtölin voru tekin á Kópaskeri, Raufarhöfn, Akureyri, Grindavík og á Þórshöfn en allir sem tekin voru viðtöl við höfðu búin á svæðinu lengi og þekktu vel til þess. Í allt voru þátttakendur á vinnustofunum 12 og viðtöl voru tekin við 8 aðila.
Vinnustofurnar á Kópaskeri fóru fram í Skólahúsinu /Jarðskjálftasetrinu, en ákveðið var að halda vinnustofuna í Reykjavík í heimahúsi. Vinnustofurnar voru auglýstar á Facebook auk þess sem þær voru auglýstar í Skeglunni, sem er auglýsingarblað dreift um allt svæðið frá Kelduhverfi til Bakkafjarðar. Þá voru send samfélagsmiðlaskilaboð á fjölda kvenna auk þess sem hringt var í ýmsa og þeim boðin þátttaka.
Vinnustofa á Kópaskeri 12. nóvember 2022.
Útbúinn hafði verið listi með áhersluatriðum sem fengust með því að senda könnun til kvenna á / af svæðinu þar sem spurt var um hvaða atriði þær teldu skipta mestu máli fyrir svæðið og konur þar, en þar sem ákveðið hafði verið að leyfa samtalinu að flæða fór umræðan fljótlega í aðra átt en fyrirhugað var.
Fiðrildaáhrif, rætt var um hvað það væri – mögulega hægt að tengja það hreyfingu kvenna við maka- og námsval. Á Íslandi er ekki algengt að tala um konur sem fiðrildi en þekkist um ungar stúlkur sem dansa og flögra um. Yfirleitt jákvætt þegar um 3-10 ára stúlkur er að ræða en neikvætt eftir það. Fiðrildi eru falleg og viðkvæm. Vertu sæt og haltu kjafti!
Rætt var um hvað hefði áhrif á konur en að auki var rætt um konur sem höfðu verið hvatning fyrir aðrar konur og þegar ein kona aflaði sér menntunar hafði það áhrif á nærumhverfið, þær urðu jákvæðar fyrirmyndir sem sýndu dætrum sínum og öðrum að menntun væri eitthvað til að stefna á.
Umræða var um makaval, nám, skóla, börn, kvenfélög, handavinnu, sköpunarþörf, listir, starfsval og margt fleira. Ákveðið var að horfa til menntunar, félagsstarfs og atvinnu með áherslu á ljósmæður og kvenkyns kennara sem urðu m.a. fyrstu skólastjórar í tveimur grunnskólum á svæðinu. Ákveðið var að taka viðtöl við nokkrar konur sem eru rúmlega 90 ára og gátu gefið góðar upplýsingar um menntun og störf kvenna á árum áður, upplýsingar sem konur telja að skipti miklu máli að halda til haga

Vinnustofa á Kópaskeri í 4.marz 2023.
Þar sem meirihluti þeirra sem mættu ekki á fyrri vinnustofunni byrjuðum við þá næstu með því að segja frá helstu niðurstöðum sem komu fram áður þ.e. menntun, félagsstarf og atvinna. Umræðan fór um víðan völl og deildu konur hinum ýmsu upplýsingum um nærumhverfið.
Rætt var um hversu jákvæð umfjöllun um gildi menntunar inni á heimilum, við eldhúsborðið, hefur mikið að segja um viðhorf fólk til menntunar og er hvetjandi. Hússtjórnarskólar gegndu mikilvægu hlutverki. Þar lærðu konur að reka heimili, sauma, handavinnu og gerðu mörg listaverkin á þeim vettvangi. Hægt að sjá hluta þeirra vinnu á Byggðasafninu.
Rætt var um gildi kvenfélagsins fyrir samfélagið. Á árum áður útvegaði það aðstoðarkonu (og borgaði líklega fyrir) til að fara inn á heimili og aðstoða þegar veikindi herjuðu á húsmæðurnar.
Rætt var um hvers vegna konur lögðu oft á sig erfiða fjarveru frá heimilum til að gerast ljósmæður. Virðing í samfélaginu hefur mögulega haft áhrif þar auk viljans til að aðstoða aðrar konur.
Rætt var um þau árstíðabundnu störf sem konur unnu og vinna enn t.d. síld á Raufarhöfn – þar sem konur frá öllu svæðinu unnu, sem og sláturhúsið á Kópaskeri – haustvinna.
Umræðan fór næst í að skoða hvar við sjáum fótspor /áhrif kvenna á náttúrulega umhverfið. Fram kom að hópurinn á Spáni væri m.a. að skoða garð sem tengdist konum, líklega matjurtaframleiðsla. Það var ekki vani á Kópaskeri og sveitunum umhverfis þorpið að vera með sameiginlega matjurtagarða en mjög margir voru með eigin kartöflugarða í garðinum hjá sér. Ýmsir hafa einnig komið sér upp gróðurhúsum þar sem framleitt er annað grænmeti og ávextir. Vegna þess hversu stutt sumarið er á Íslandi er framleiðsla á matjurtum yfirleitt bara fyrir heimilisfólk.
Umhverfismál og fótspor kvenna tengt því. Þátttakendur töldu að með stofnun Skógræktarfélagsins hafi verið farið af stað með skógrækt og önnur umhverfismál á svæðinu. Guðrún, húsfreyjan á Brekku í Núpasveit var líklega fyrst til að girða af svæði og friða fyrir búfénaði á svæðinu, hún keypti stundum eina dreifingu úr áburðarflugvélinni Páll Sveinsson í samstarfi við Landgræðsluna. Stóð hún einnig fyrir því að gera varnargarð til að koma í veg fyrir landbrot vegna ágangs sjávar við ströndina fyrir neðan bæinn.
Lúpínu var sáð í árgil og mela. Í dag er vitað að lúpínan fer yfir allt og getur verið skaðvaldur, en trúað var í upphafi að hún mundi hörfa undan öðrum gróðri. En vissulega bætir hún jarðveginn og kemur í veg fyrir jarðfok sem er mikilvægt á þessum stöðum.
Garðar voru við mörg hús og bæi. Við Útskála á Kópaskeri voru bæði runnar og fjölærar plöntur. Stór garður er á Brekku og eru einnig garðar við Presthóla og Daðastaði. Þá hafa konur mikið komið að uppbyggingu Vatnajökulþjóðgarðs. Fyrsti landvörðurinn var kona og núverandi landvörður er það einnig.
Varðandi nöfn og svæðið þá koma upp nöfnin Stofufjall, Baðstofutjörn, Meyjaþúfa og Þórunnarfjall sem öll vísa í konur eða hýbýli þeirra.
Tónlistarlíf. Mikið var um að stúlkur færu í orgeltíma og tónlistarnám. Orgel voru til á mörgum heimilum. Fyrsta barnið (stúlka) sem fæddist á Kópaskeri lærði á orgel. Þegar hún var orðin fullorðin gaf hún flygil sem er staðsettur í Skólahúsinu. Flygilvinafélagið er með tónleika í Skólahúsinu þar sem ýmsir tónlistarmenn koma á svæðið og spila m.a. á flygilinn.
Niðurstaða vinnustofunnar er að fótspor kvenna á svæðinu eru miklu meiri en fólk gerir sér grein fyrir. Ákveðið var að taka viðtöl við fleiri konur sem komust ekki á vinnustofurnar og fræðast um störf þeirra en þetta eru konur sem gegndu störfum sem voru hefðbundin karlastörf þegar þær unnu þau.

Vinnustofa í Reykjavík 23.3 2023
Þrátt fyrir að vinnustofan væri vel auglýst mætti einungis ein kona frá Raufarhöfn á hana auk aðila frá LBL. Aðferðafræðin varð því óformlegt samtal á milli aðila með áherslu á að velta fyrir sér og ræða um fótspor kvenna og líf þeirra á Raufarhöfn í kringum 1960-1980. Var þetta mjög fróðlegt samtal og margt áhugavert um líf kvenna í litlu sjárvarplássi kom fram. Konur voru húsmæður sem unnu utan heimilis við hin ýmsu störf, m.a. við síldarvinnslu, sem kennarar, ljósmæður, á saumastofu, á hóteli og í versluninni. Einnig var þar öflugt félagslíf, m.a. kvenfélag og kirkjukór.
Athyglisvert hvað konur voru allt í öllu í samfélaginu. Þær voru kennarar, hreppstjórar, lögreglumenn o.s.fr með hefðbundnu húsmæðrastarfi.
Miklar samfélagslegar breytingar áttu sér stað á þessum tíma en á Raufarhöfn höfðu síldarárin mikil áhrif á atvinnuþátttöku kvenna utan heimilis.
Ákveðið var að hafa samband við eldri kynslóðina á Raufarhöfn og fá nánari upplýsingar lífið á Raufarhöfn

Viðtöl

Ásta
Fyrsta viðtalið var við Ástu og fjallaði um nám og áhrif ljósmæðra og kennara

Halla, Kolbrún, Hafrún
Annað viðtalið var við Kolbrúnu og Höllu dóttur hennar til að fræðast um daglegt líf kvenna til sveita, hvernig menntun var háttað til sveita og aðdraganda þess að Kolbrún var fyrsti kvenkyns lögregluþjónninn í dreifbýli Íslands

Hólmfríður
Fjórða viðtalið var við Guðbjörgu dóttur Guðrúnar á Brekku til að fá nánari upplýsingar um verndun og endurheimt gróðurs á svæðinu en það er nauðsynlegt til að skilja þróun menningarlandslags svæðisins á síðustu áratugum

Guðbjörg
Fjórða viðtalið var við Guðbjörgu dóttur Guðrúnar á Brekku til að fá nánari upplýsingar um verndun og endurheimt gróðurs á svæðinu en það er nauðsynlegt til að skilja þróun menningarlandslags svæðisins á síðustu áratugum.

Stella og Helgi
Fimmta viðtalið var tekið við Stellu og Helga, eiginmann hennar og var í formi beinna spurninga um atvinnu, vatn, jörð, menningu og menntun á Raufarhöfn, sem er þekktur sem einn stærsti síldarbær Íslands.

Hafrún, Fjóla og María
Sjötta viðtalið var við Fjólu sem hefur bæði búið á Raufarhöfn og sveitabæjum í nágrenni. Viðtalið var í formi beinna spurninga um farskóla til sveita, vatn, uppgræðslu, vinnu og félagslíf.